Um Kærleikssamtökin

STOFNUN FÉLAGSINS
Kærleikssamtökin voru stofnuð sem almenn félagasamtök 1.11.2004. Hefur Sigurlaug G. Ingólfsdóttir verið formaður félagsins frá upphafi. Um var að ræða andlega köllun sem hefur alla tíð einkennt starfið. Hefur Sigurlaug verið leidd áfram í mótun og uppbyggingu félagsins í gegnum árin og þá samhliða sínum áskorunum vegna geðræns ójafnvægis sem tengjast áföllum úr barnæsku.  

Á árunum 2004-11 fólst starfið með fyrirlestrinum Þunglyndi án lyfja, hugleiðsluhóp, fyrirbænum, heilun, jóga fyrir börn og fullorðna, sjálfsstyrktar námskeiði fyrir almenning, hjá Götusmiðjunni og inni á Litla Hrauni, einstaklingsvinnu með verkefnamöppu, ásamt því að aðstoða nokkra einstaklinga sem voru heimilislausir.

Unnið var að því að hafa samband við nokkur félagasamtök til að koma á samstarfi og útbúa aðgengi fyrir almenning með upplýsingum um hvert væri best að leita eftir því hvaða úrræði hver þurfti.

Styrktarverkefni var unnið með einstaklingum utan fangelsis, sem var á vegum Evrópusambandsins um alla Evrópu og hét Evrópuár 2010 gegn fátækt og félagslegri einangrun. Verkefnið hjá Kærleikssamtökunum hét Fangar í nýju ljósi. Gefin var út bæklingur um verkefnið og honum dreift um landið á bókasöfn,  þjónustumiðstöðvar, lögreglustöðvar og aðra opinbera staði.

Hér er hægt að sjá bæklinginn.

Kærleikssamtökunum var lokað frá desember 2011 til desember 2015 vegna veikinda formanns. Sigurlaug segir "Eftir 4ra ára fjarveru og meðferðir fór ég að skilja að starf samtakanna hafði þróast samhliða mínu bataferli. Það var ekkert annað að gera en að opna þau aftur og ég kom meðvitaðri, öruggari og sterkari til baka. Næstu tvo árin gengu þó hægt því ég var að venjast því að lifa án kvíða. Ég lærði að það var ekki nóg að losna við kvíðann heldur tók þá við tími til að aðlagast og læra að eiga samskipti án hans, að taka ákvarðanir með nýjum hætti og treysta án þess að þurfa að fara í gegnum langt innra skoðunarferli til að meta hlutina. Þetta var erfiður tími en góður." 

Þegar Kærleikssamtökin voru stofnuð aftur árið 2015 var til ársins 2021 í lögum þess að utanaðkomandi aðilar gætu stofnað deildir undir hatti félagsins. Var það gert til að styðja við einstaklinga sem vildu koma ákveðnu starfi á laggirnar eða hópi einstaklinga sem vildi stofna félag. Urðu slík verkefni að byggja á grundvelli tilgangs og markmiða Kærleikssamtakanna – sem er að vinna og koma fram með uppbyggjandi lausnir sem hjálpa einstaklingum og hópum. Þessu var breytt árið 2022 þegar lög félagsins voru uppfærð eins og vikið er að síðar í þessari umfjöllun.

STAMSTARF VIÐ FÉLAGASAMTÖK REYNT ÁFRAM
Haustið 2017 var aftur haft samband við fleiri félagasamtök til að athuga með og koma á samstarfi. Sú sýn að félagasamtök eigi og þurfi að vinna saman á nýjum forsendum hefur verði ástæða þess að koma því á. Lögð var áhersla á að koma saman að verkefnum fyrir mismunandi hópa þar sem mörg félög eru með áherslu á ákveðna hópa. Þetta virtist snúið og við oft spurð hvort við vildum peninga frá þeim félögum sem við vorum að hitta. Svari var nei því samstarfið sem við ræddum snérist um að hvert félag væri sjálfstætt í sínum verkefnum en kæmi að sameiginlegu verkefni með öðrum félögum. Aðalatriðið við þetta er að geta aðstoðað einstaklinga á breiðari grunni, þ.e. að einstaklingurinn geti verið með stuðningsnet nokkurra aðila sem viðkomandi þarf á að halda en sem leggja áherslu á ólíka þætti.

Í október 2018 héldu Kærleikssamtökin fund og buðu nokkrum félagasamtökum að koma og ræða samstarf sín á milli. Þeir sem mættu voru sammála um að það þyrfti samstarf milli félagasamtaka en einnig kom fram að sumir gátu ekki bætt við sig þeirri vinnu og aðrir gátu ekki verið í samstarfi út af ólíkum áherslum innan félaganna. Nokkur félög voru þó tilbúin að vera með í erindi til stýrihóps í málefnum heimilislausra og óska eftir fundi, sem fékkst ekki. Eftir stóð að félagasamtök voru að mati Kærleikssamtakanna ekki tilbúin að einblína á nauðsyn samstarfs í þágu þeirra einstaklinga og hópa sem eru undir í þjóðfélaginu og þrýsta á sveitarfélög og hið opinbera til að gera betur. 

Að auki þarf að verða meira samstarf milli félagasamtaka til að þau komi störfum sínum markvissara á framfæri við hið opinbera, svo að meira tillit sé tekið til nauðsynjar félagasamtaka með margvíslegan ávinning fyrir þjóðfélagið í heild. 

ÓSKAÐ EFTIR SAMSTARFI VIÐ STJÓRNMÁLAFLOKKA
Frá ágúst 2017 til júlí 2018 ræddu Kærleikssamtökin við nokkra stjórnmálamenn og -flokka. Fundur var haldinn með Flokki Fólksins í ágúst 2017, töluverðar viðræður voru við Eyþór Arnalds fyrir kosningar vorið 2018 og fékk hann og samstarfsfólk hans góða innsýn inn í málefni heimilislausra, einstaklinganna á tjaldsvæðinu og í Víðinesi. Óskað var eftir fundi með borgarstjóra 18.6.2018 og aftur 4.7.2018 til að ræða samstarf í málefnum heimilislausra - engin viðbrögð. Óskað var eftir fundi með meirihlutanum eftir kosningar 27.6.2018 - engin viðbrögð. Óskað var eftir fundi með minnihlutanum eftir kosningar og úr varð þessi fíni fundur þann 29.6.2018 þó engin þeirra væri tilbúin að gera samstarfssamning. Þarna var komin verulegur þrýstingur á meirihlutann út af málefnum heimilislausra því niðurstöður nýlegrar rannsóknar sýndi fram á 95% aukningu á heimilisleysi á árunum 2012-17. Strax að loknum fundinum með minnihlutanum, sendi Sanna M. Mörtudóttir borgarfulltrúi, inn beiðni um aukafund með velferðarsviði- ráði og meirihlutanum, f.h. minnihlutans og Kærleikssamtakanna. Allt gerðist þetta rétt áður en álit umboðsmanns Alþingis kom út, sem var frumkvæðis athugun hans á málefnum utangarðsfólks vegna allmargra kvartana. 

Vegna mikils þrýstings á meirihlutann kom frétt þann 27.7.2018 þess efnis að haldinn yrði aukafundur í borgarstjórn að beiðni minnihlutans - ekkert minnst á Kærleikssamtökin. Sendum við frá okkur yfirlýsingu og leiðréttum málið en ekkert var hlustað á það og okkur ekki hleypt inn á fundinn. Í sömu frétt er tilkynnt um stærri fund 10.8.2018 með hagsmunaaðilum, einnig segir að það skipti máli þegar verið sé að ræða svona málefni að allir komi að borðinu. Þessi orð áttu sér ekki lengi stoð því stýrihópurinn sem var valinn til að vinna næstu stefnu í málefnum heimilislausra hitti útvalin félög og takmarkaði allan aðgang eins og hægt var - svo þeir sem komust að borðinu fengu 5 mínútur í ágúst 2018 og aðrar nokkrar mínútur í febrúar 2019 til að koma sínum málum á framfæri. 

Annað er að í fundarboði fyrir fundinn 10.8.2018 stendur "Að í álitinu (frá umboðsmanni) sé ljósi varpað á vaxandi vanda heimilislausra á höfuðborgarsvæðinu". Í álitinu segir hins vegar "Tildrög athugunarinnar voru m.a. kvartanir og ábendingar sem umboðsmanni hafa borist þar sem gerðar eru athugasemdir við hvernig sveitarfélögin rækja það verkefni að sjá til þess að veita þeim, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum og meðferð slíkra mála".

Þá segir einnig að umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu "að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um biðtíma utangarðsfólks eftir því að fá úthlutað varanlegu húsnæði hjá Reykjavíkurborg, skilyrði sem í reynd eru sett gagnvart þeim sem glíma við fíknivanda til að fá úthlutað húsnæði og fjölda gistinátta sömu einstaklinga í neyðarathvörfum hjá borginni, verði ekki annað ráðið en að til staðar sé almennur og viðvarandi vandi í tengslum við húsnæðismál utangarðsfólks og það sama eigi við um hóp einstaklinga með fjölþættan vanda. Ekki sé unnt að líta svo á að almennur málsmeðferðartími í málaflokknumsé í samræmi við þau sjónarmið sem liggja til grundvallar málshraðareglum stjórnsýsluréttarins. Þegar þessi atriði og umgjörð við úrlausn á húsnæðisvanda utangarðsfólks hjá Reykjavíkurborg séu virt heildstætt skorti á að Reykjavíkurborg tryggi utangarðsfólki, svo fullnægjandi sé, aðstoð við lausn á bráðum húsnæðisvanda í samræmi við ákvæði laga nr. 40/1991, eins og þau verða túlkuð í ljósi 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og fjölþjóðlegra mannréttindareglna. Umboðsmaður komst einnig að þeirri niðurstöðu að reglur Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur fullnægi ekki kröfum sem gera verður til skýrleika reglna um skilyrði sem í reynd eru sett fyrir úthlutun húsnæðis". 

UNNIÐ MEÐ OG FYRIR HEIMILISLAUSA
Í desember 2017 komu Kærleikssamtökin að aðstæðum einstaklinga sem bjuggu í húsbílum á tjaldsvæðinu í Laugardal og sem borgin var þá að reyna að fá til að flytja í nýopnað neyðarathvarf í Víðinesi. Nokkrir einstaklingar annars staðar frá komu einnig í Víðines, mikil óvissa ríkti um framhaldið og með aðstoð samtakanna var leigusamningunum rift og óskað eftir fundi með borgarstjóra. Viðbrögðin voru hótanir í garð einstaklinganna sem neyddust til að velja á milli þess að vera húsnæðislaus eða samþykkja valdbeitingu kerfisins. Fór það á báða vegu því hver og einn var misjafnlega tilbúinn að fara á móti kerfinu.

Varðandi tjaldsvæðið lögðum við til með einstaklingunum á svæðinu, að fundin yrði lóð undir húsbíla og tillaga að tveimur lóðum lögð fram fyrir Reykjavíkurborg. Margir fundir voru haldnir veturinn 2018-19 með Reykjavíkurborg til að ræða stöðuna og finna lausn. Óskað var eftir tilboði frá samtökunum til að hafa umsjón með þessu verkefni á tjaldsvæðinu yfir veturinn, sem við lögðum fram vorið 2019. Eina krafan sem við gerðum var að fá skýr svör um það hvert við ættum að vísa heimilislausum einstaklingum sem læddust inn á tjaldsvæðið yfir blánóttina til að hvílast í tjaldi eða jafnvel bara svefnpoka (allan ársins hring) en gátu ekki greitt leigu og/eða voru undir áhrifum. Við upplýstum einnig um háttalag félagsins sem sá um tjaldsvæðið, en mikið reyndu þau að koma þessum hópi einstaklinga burt með ýmsum ráðum. Það fór svo að næsta vetur var ákveðið að nota það sem við höfðum lagt fram í tilboðinu en láta aðra sjá um það. Þetta er að ferð sem sést oft hjá kerfinu, að fá allar upplýsingar um hvernig félag myndi gera hlutina og láta líta út eins og það sé samstarf framundan, en ýta þeim svo til hliðar og efa verkið öðrum aðila eða sjá um það sjálfir og láta sem það sé þeirra eigin uppfinning.

Samhliða þessu starfi vorum við úti á götu og kynntumst einstaklingum sem dvöldu í Gistiskýlinu, í gámunum út á Granda eða löbbuðu hring eftir hring alla nóttina, dvöldu í bílakjöllurum eða bara þar sem þeir komust inn hverju sinni. Í þeim hópi voru allmargir sem þáðu aðstoð okkar við bréfskriftir og sem við mættum með á fundi hjá velferðarsviðinu til að þrýsta á rétt þeirra. Kerfið fór á hliðina því það gat ekki umborið þessa aðstoð og stuðning við þennan hóp einstaklinga. Bréfaskriftirnar teygðu sig víða í formi erinda og kvartana en greinilegt er að kerfið stendur með kerfinu, þ.e. stofnanir sem tóku við kvörtunum er vörðuðu velferðarsvið sveitarfélaga fóru að spyrna við og ýta þeim út af borðinu ef hægt var. Kærleikssamtökin hafa ekki byggt erindi sín mikið á lögfræðilegum grunni heldur út frá því að heimilislausir einstaklingar eiga rétt á einstaklingsmiðaðri þjónustu frá sínu sveitarfélagi sem á að uppfylla stjórnsýslulög og fjölmörg mannréttindalög. Því var stöðugt haldið fram að svo væri þrátt fyrir að um mitt sumar 2018 kom út álit umboðsmanns Alþingis (9164/2016) sem sýndi fram á að svo var ekki eins og komið er inn á hér að framan. 

Nefna má að við fyrirspurn til velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um húsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd var svarið m.a. "Samningur er á milli Útlendingastofnunar og Reykjavíkurborgar að þjónusta umsækjendur um alþjóðlega vernd og er liður í hlutverki stjórnvalda að tryggja þjónustu á meðan mál þeirra eru til meðferðar og tryggja látlaust og fullnægjandi húsnæði. Eru þetta íbúðir á almennum markaði". Síðustu tvö árin hefur enn meira bæst við aðgerðir og fjárútlát vegna innflytjenda og hefur hvert húsnæðið á fætur öðru verið tekið á leigu og innréttað - á meðan ekki er til fjármagn til að tryggja íslenskum ríkisborgunum húsnæði, ekki einu sinni bráðabirgðahúsnæði. 

Kærleikssamtökin, með hópi heimilislausra einstaklinga báðu um 3 neyðarfundi vegna aðstæðna og óvissu í Víðinesi og tjaldsvæðinu á Laugardalnum. Fyrst 2.12.2018, næst 20.12.2018 og svo 9.5.2019. Einstaklingar sem kölluðu með þessu móti á hjálp því þau bjuggu við mikla óvissu, kvíða og vanlíðan á báðum þessum stöðum. Engin sem haft var samband við, þ.e. velferðarsvið Reykjavíkurborgar, borgarfulltrúar og ákveðin ráðuneyti, sá ástæðu til að hitta okkur. 

HVATNINGARVERÐLAUN ÖBÍ
Árið 2018 voru Kærleikssamtökin tilnefnd til hinna árlegu Hvatningarverðlauna ÖBÍ eða Öryrkjabandalags Íslands. Hlutum við 3ja sætið fyrir vinnu okkar með heimilislausum og að málefnum heimilislausra á Íslandi. Kærleikssamtökin þakka fyrir sig.

Árið 2019 var unnið áfram út á götu og að málefnum heimilislausra. Ekki var fundin lóð fyrir þá sem bjuggu á tjaldsvæðinu í Laugardal en mikið gert til þess að reyna að losna við fólkið þaðan. Víðinesinu var lokað í nóvember þetta ár og einstaklingunum komið fyrir á gistiheimili. Aðstaðan í Víðinesinu var hræðileg og illa farið með þá einstaklinga sem voru fastur þarna. Ýmsar umfjallanir voru í fjölmiðlum og af hálfu kerfisins voru einstaklingarnir gerðir að blórabögglum og ekki hægt að líta í eigin barm. Það var ekki hlúið að neinum einstaklingi sem kom í þetta hús, heldur þrengt að þeim og fólk fékk stimpil á sig fyrir að neyðast til að búa þarna. Þetta neyðarúrræði átti að vera tímabundin lausn meðan unnið yrði að húsnæðismálum þeirra, en sumir bjuggu þarna allan tímann eða í tæp 2 ár. Hægt er að nefna að einn einstaklingur fékk inn á Reykjalund, fékk símtal til að mæta og þegar búið var að fara yfir öll atriðin, þá spyr starfsmaðurinn hvar viðkomandi búi, í Víðinesi, ha er það ekki staður fyrir heimilislausa fíkla, heyrðu það verður haft samband við þig aftur – sem aldrei varð. Þessum sama einstaklingi var lofuð félagsleg íbúð er hann var á gistiheimilinu eftir að Víðinesinu var lokað, það var svo dregið til baka, það kært og hann fékk íbúðina. Á innan við hálfu ári fer að leka undir vaskinum í eldhúsinu og kom þá í ljós að mikil mygla var þar undir nýrri eldhúsinnréttingunni. Öll íbúðin var nýtekin í gegn, nýtt á gólfum, á baðinu og í eldhúsinu. Ekki var gert við lekann og meiri mygla kom í ljós í íbúðinni. Þegar mælt var fyrir myglu af hálfu kerfisins var niðurstaðan engin mygla en þegar viðkomandi einstaklingur lét óháðan aðila mæla komu í ljós 13 tegundir af myglu og þarf 3 lífshættulegar. Víðinesið er þó ekki eini staðurinn sem farið er illa með einstaklinga því Gistiskýlið er einnig neyðarúrræði sem margir hafa búið í til fjölda ára og hafa ekkert afdrep fyrir sig nema rúm á nóttinni og einn læstan skáp, þurfa svo að vera úti yfir daginn alla daga ársins. Gistiskýlið er rekið á undanþágu frá Heilbrigðiseftirlitinu ár eftir ár.

Nokkur hóperindi voru skrifuð með heimilislausum einstaklingum vegna margra ósvaraðra erinda á þjónustumiðstöðum, til að kalla eftir svörum og þrýsta á breytingar. Ákveðið var í október 2019 að boða til fundar með velferðarsviði Reykjavíkurborgar, umboðsmanni borgarbúa og umboðsmanni Alþingis. Velferðarsviðið og umboðsmaður borgarbúa reyndu að taka yfir undirbúning fundarins, þeim gat ekki hugnast að með okkur kæmi 20 manna hópur heimilislausra einstaklinga. Það kom covid og velferðarsviðið gat blásið fundinn af, minnt var á hann í fyrra en engin viðbrögð hafa borist enn.

KÆRLEIKSSAMTÖKIN ÁFANGAHEIMILI
Árið 2020 fengu Kærleikssamtökin einbýli á leigu eftir að hafa árið 2017 staðið að söfnun til að kaupa húsið og reka þar áfangaheimili. Þar sem ekki náðist að kaupa eignina var óskað eftir kaupleigusamningi sem náði ekki fótfestu.  Engin leið var að fá húsnæðið leigt á þeim tíma, þó það stæði autt í nokkur ár, en það breyttist í byrjun árs 2020. Með mjög stuttum fyrirvara tókum við húsið á leigu, en sá mannskapur sem var tilbúinn að koma að verkefninu tveimur árum fyrr var ekki lengur tiltækur. Þarna var húsið illa farið eftir útleigu til annars aðila í eitt og hálft ár á undanog greinilegt að allt of mörgum vinnumönnum hafði verið komið þar fyrir.Mikil vinna fór í að þrífa húsið ásamt því að það hafði lekið á þrem stöðum í nokkur ár. Húsið var leigt í því ástandi sem það var í. Þegar reyndi á að nota ákveðin herbergi, m.a. vegna lekanna og mun meiri vinnu við að lagfæra þá en var fyrirséð og að sum herbergin náðu ekki skilyrðum um stærð, þá náðist ekkert samkomulag og við áttum að bera allan viðgerðarkostnað. Garðurinn hafði ekki verði hirtur í 10 ár. Hluti af virkniúrræðinu var, að þarna væru fjölmörg verkefni sem leigjendur gætu tekið þátt í eftir getu og áhuga og langflestir töluðu um hversu niðurdrepandi það væri að hafa ekkert fyrir stafni yfir daginn. Nokkrir leigjendur tóku góðan þátt í þessum verkefnum á meðan aðrir kvörtuðu yfir að fá ekki nægilega þjónustu á móti leigu og fæðisgjaldi og aðrir vildu helst fá allt frítt. Til viðbótar var töluvert um ósanngjarna framkomu og margir vísuðu þannig sjálfum sér út. Mikið álag var vegna þessara þátta en sem hefði getað farið vel ef fólk hefði staðið meira saman.

Ekki var hægt að ná neinni lendingu varðandi leigu sem ekki var hægt að standa við, vinnan okkar við húsið ekki mikils metin, heldur leigusamningnum rift. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar neitaði með öllu að aðstoða þá einstaklinga sem áttu erfitt með að borga leiguna og neituðu að greiða okkur styrk sem þeir veita áfangaheimilum, á grundvelli margra útúrsnúninga og því að einstaklingarnir höfðu ekki verið í endurhæfingu meðan á dvöl þeirra stóð. Önnur áfangaheimili hafa ekki þurft að uppfylla þessa kröfu og önnur áfangaheimili bjóða einstaklingum ekki jafn mikinn stuðning og virkniúrræði á staðnum eins var gert á áfangaheimili Kærleikssamtakanna.

Önnur krafa var að við áttum að sýna fram á að einstaklingarnir hefðu komið beint úr meðferð inn á áfangaheimilið - á meðan velferðarsvið Reykjavíkurborgar greiddi þennan styrk til áfangaheimilis sem er með blautt úrræði, svo einstaklingarnir voru ekki að koma úr meðferð og eru bæði í neyslu og engri endurhæfingu. Sum áfangaheimili krefjast þess að einstaklingur séu í vinnu eða öðru úrræði en sum gera enga slíka kröfu. Hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar fyrir vikið mismunað áfangaheimilum og ýtt undir áframhaldandi heimilisleysi en hægt var að hafa 18 einstakling á þessu áfangaheimili.

KÆRLEIKSSAMTÖKIN MANNRÉTTINDAKERFI og HEILDARLAUSNIR
Hér er hægt að lesa um Mannréttindakerfi Kærleikssamtakanna, þær 7 leiðir sem það byggir á og heildarlausnir Kærleissamtakanna.

KÆRLEIKSSAMTÖKIN ALMANNAHEILLAFÉLAG
Kærleikssamtökin hafa frá upphafi unnið almannaheillastarf. Það var því tilvalið að fá félagið skráð sem almannaheillafélag (fta) þegar ný lög nr. 110/2021 voru gefin út. Varð félagið að fta félagi þann 4.3.2022 og fékk skráningu í almannaheillaskrá ríkisskattstjóra um haustið sama ár, en sú skráning þýðir að styrktaraðilar fá skattaafslátt á móti beinu framlagi, í samræmi við annars vegar styrki einstaklinga og hins vegar styrki fyrirtækja. 

Lög félagsins voru uppfærð, bæði til að uppfylla lög nr. 110/2021 og til að skerpa á orðalagi í tilgangi og markmiðum félagsins. Starfið sem hafði mótast með árunum innan Kærleikssamtakanna var sett upp i deildir innan félagsins sem gefa til kynna afmarkað starf innan hverrar þeirra. Til að mynda þurfa allir félagsmenn ekki að nýta sér allar deildir félagsins þar sem aðstæður hvers er misjafnar, þannig einfalda deildirnar einstaklingum að kynna sér og nýta starfið á uppbyggilegan hátt.

Líkamlegri heilsu formanns hrakaði eftir of mikið starf árin 2017-2020. Vinnan við að koma félaginu í fta félag var samt unnin, félagsstarfið jókst og samhliða voru nokkrir einstaklingar studdir áfram í sínum málum. Það vantar fleiri einstaklinga inn í félagið, bæði í stjórn félagsins og önnur störf. Staðið hefur verið að söfnun til að koma á laggirnar félagsheimili þar sem hægt er að halda starfinu áfram. Vegna manneklu hefur það gengið hægt.

Oft vex það í augum fólks að taka sæti í stjórn félags eða taka að sér sjálfboðaliðastarf. Hafa verður í huga að sama hversu lítið verkefni hver getur tekið að sér og sama hversu litlum tíma hver getur gefið – þá er hver klukkustund sem hver getur gefið afar dýrmæt til að koma starfi samtakanna á þann stað sem það þarf að vera á. Félagsmenn geta einnig lagt sitt af mörkum samhliða því að nýta sér úrræði félagsins, sem sjálfboðaliðar með því að taka að sér smávægileg verkefni, bæði til að styðja félagið og samhliða hafa eitthvað fyrir stafni. Margir einstaklingar eru félagslega einangraðir og eru ekki lengur þátttakendur í þjóðfélaginu. Það að taka að sér starf eða verkefni innan Kærleikssamtakanna er liður í virkni- og stuðningsúrræði þeirra til að virkjast aftur út í lífið. Gerist það bæði við að virkja sig félagslega, heilsufarslega, með fjárhagslegri ábyrgð, að hafa eitthvað fyrir stafni, mennta sig, byggja upp áhugamál o.fl. til. Þannig getur sjálfboðaliðastarf verið til þess að auka við sig þekkingu og getu, að byggja sig upp, koma á daglegri rútínu, bera ábyrgð o.fl. sem hlýst af því.

TILGANGUR OG MARKMIÐ
Starf Kærleikssamtakanna hefur alla tíð gengið út á að leiða saman einstaklinga og hópa í samstarfi, koma fram með vitundarvakningu um heildarlausnir sem tengjast mannréttindum, ýta undir að allir geti komið að, setið við sama borð og sýnt hvort öðru virðingu, til að geta tekið höndum saman óháð bakgrunni hvers og eins og tryggja að hvert okkar geti lifað sæmandi lífi. 

Á þeirri vegferð hefur því miður margt komið fram sem bendir til þess að margir einstaklingar eru tilbúnari að líta fram hjá eða verja sig og starf sitt á þann hátt - að aðrir verða undir og sitja eftir. 

Þá hefur starf samtakanna sem tengist vinnu með einstaklingum falið í sér að rjúfa félagslega einangrun með virkni- og stuðningsúrræði, gefa einstaklingum rödd, aðstoða með erindi, vera stuðningur og efla einstaklinga til að horfast í augu við og takast á við sinn eigin vanda, hver sem hann er, og leita sér nauðsynlegrar aðstoðar, stuðnings, endurhæfingar og/eða meðferðar. 

Starf samtakanna einskorðast við íslenskumælandi íslenska ríkisborgara. Til skýringar þá eru fjölmörg félög og Útlendingastofnun sem sérhæfa sig í vinnu með einstaklingum af erlendum grunni. Með íslenskumælandi íslenskum ríkisborgara er átt við einstaklinga sem tala og skilja íslenskt mál því allt starf samtakanna fer fram á íslensku. Tilgangur og markmið félagsins var uppfært við umsókn um fta félag og er í dag eftirfarandi: 

Tilgangur og markmið félagsins er að gæta hagsmuna og reka félagsstarf fyrir einstaklinga sem eru félagslega einangraðir, búa við fátækt, eru heimilislausir og eiga langtíma óreglu- og/eða áfallasögu, með áherslu á jaðarsetta og viðkvæma hópa í þjóðfélaginu. Markmið til að ná tilgangi félagsins, eru að:

  • Starfa í þágu íslenskumælandi íslenskra ríkisborgara.
  • Vera vettvangur fyrir félagsmenn.
  • Vera með félagstarf, virkni- og stuðningsúrræði fyrir félagsmenn.
  • Vera með forvarnarstarf til að fyrirbyggja og rjúfa félagslega einangrun.
  • Vera með fræðsluefni og vinnustofur fyrir félagsmenn.
    • Skapa þannig tækifæri að uppbyggjandi og langvarandi lausnum fyrir félagsmenn.
    • Stuðla að jákvæðum mannlegum samskiptum við og milli félagsmanna.
    • Styðja félagsmenn til að sækja sér meðferðar og/eða nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu eftir þörfum.
      • Miðla uppbyggjandi, efnislegum og andlegum aðferðum sem hægt er að nota í daglegu lífi án trúarskoðana.
      • Með samstarfssamningum er stuðlað að samvinnu við einstaklinga, fyrirtæki og félög, stofnanir og stjórnmálaflokka sem vinna að uppbyggjandi úrræðum.
      • Standa vörð um réttindi og hagsmuni félagsmanna. Ýta undir lausnir og þrýsta á sveitarfélög og ríkið til að virða mannréttindalög gagnvart jaðarsettum og viðkvæmum hópum í þjóðfélaginu og tryggja þeim lífsnauðsynleg lífsgæði.

Kærleikssamtökin starfrækja 7 deildir sem tengjast tilgangi og markmiðum félagsins; Deild 1. Bækurnar. Deild 2. Ég er þessi virði. Deild 3. Fangar í nýju ljósi. Deild 4. Félagsheimili. Deild 5. Kærleikssveitin Forvarnarstarf. Deild 6. Mannréttindi. Deild 7. Réttur til heimilis.

Hver deild byggir á almannaheillaþætti sem getur haft mikla þýðingu fyrir jaðarsetta og viðkvæma hópa og þjóðfélagið í heild. Samanlagt kallar starf deildanna fram víðtæk áhrif fyrir félagsmenn, stuðla að varanlegu úrræði, fyrirbyggja og rjúfa félagslega einangrun, ýta undir virkni og að félagsmenn nýti sér stuðning, með það markmið að geta lifað sæmandi lífi.

Hér er hægt að lesa lög félagsins í heild

KÆRLEIKSSAMTÖKIN - MIKILVÆGI VITUNDARVAKNINGAR
Kærleikssamtökin ganga út frá að mannréttindi séu tengd mannlegu sjónarhorni en ekki lögum, á þann hátt að allir eiga sama rétt á að lifa sæmandi lífi og að þeir einstaklingar sem ekki hafa náð fótfestu í lífinu séu ekki síður hæfir til að skilja mannréttindi sín. Einstaklingar með áfallasögu einangrast í sínum eigin heimi og þurfa aðstoð og stuðning til að losa um þá félagslegu einangrun sem áföllin hafa komið þeim í. Til viðbótar að takast á við annan vanda sem hefur orðið til vegna engrar/ónægrar aðstoðar og stuðnings, s.s. fátækt, heimilisleysi og óregla (hvers kyns fíknar- og neysluvandi). Lög, reglugerðir og kerfin geta ekki tryggt þennan þátt, þ.e. að hver einstaklingur hafi rétt á að hafa skoðun á sínum málum, vera þátttakandi í mótun þeirra og samþykkja eða hafna úrræðum eftir því hvort viðkomandi telur þau henta sér eða ekki. 

OFBELDISSAMBAND
Það sem við hjá Kærleikssamtökunum höfum séð í vinnu okkar með og fyrir heimilislausa er að þeir eru í ofbeldissambandi við kerfið. Þeir eru fastir í klóm kerfis sem brýtur á þeim mannréttindi, t.d. þegar einstaklingar búa árum saman í Gistiskýlum borgarinnar eða að það er ekki til neyðarúrræði hjá sveitarfélaginu til að grípa þá sem verða sökum einhverja aðstæðna fátækir og/eða heimilislausir. Við höfum einnig séð að ef neysla til staðar er hún notuð gegn þeim eins og hægt er. Þeir einstaklingar sem fá húsnæði þar sem má vera í neyslu eru fastir þar því það er ekkert sem grípur þá sem vilja og ná að verða edrú. Þeir komast ekki í almennt félagslegt leiguhúsnæði þegar þeir þurfa á því að halda því þeir fara aftast á biðlistann.

Þegar kemur að lausnum sem tengjast áfallasögu og sem leitt hafa til frekari ójafnvægis á lífsleiðinni eða fyrirsjáanlegt er að svo verði - þá er afar nauðsynlegt að grípa inn til að breyta líðan sinni og ástandi. 

Að öllu jöfnu ná margir einstaklingar sjálfir að leita sér aðstoðar. Svo er þessi hópur einstaklinga sem nær því ekki. Sumir reyna og reyna, aðrir aðlagast því að vera öryrkjar, fátækir og félagslega einangraðir og svo er hluti þeirra sem fyrirfer sér á einhverjum tímapunkti. 

Hvað er til ráða? 

Allt starf Kærleikssamtakanna byggir á virkni og stuðningi ásamt því að mæta einstaklingum þar sem þeir eru staddir hverju sinni. Þegar farið var með námskeið inn á Litla Hraun árið 2008-9 var sagt að mikil þörf væri á þeirri sjálfsstyrkingu sem um ræddi. Sumir þeirra sem afplánuðu eru enn í dag að þakka fyrir að þessi námskeið björguðu þeim í gegnum fangelsisvistina.

Alla tíð hefur starf Kærleikssamtakanna einkennst af því að ná til einstaklinga í sinni verstu stöðu og aðstoða þá þar. 

Meginþátturinn sem þarf að skiljast, er sá, að langflest úrræði miða við það að einstaklingar séu búnir að taka fyrstu skrefin, séu búnir með meðferð eða séu búnir að sækja um endurhæfingu og kröfur eru um að einstaklingar þurfi sjálfir að sjá um ákveðna þætti – og þá – er hægt að aðstoða og styðja þá í næstu skrefum.

Hugsunin „þú verður“ þarf að víkja.

Þarna liggur aðalvandinn. 

Vitundarvakningin sem þarf að eiga sér stað er að það þarf að breyta hugsjón, nálgun og aðferð til að styðja einstaklinga til virkni þar sem þeir eru staddir - hvar sem þeir eru staddir. 

Hugsunin „þú verður að uppfylla mínar kröfur“ – þarf að víkja fyrir „hvernig get ég stutt þig í gegnum þínar aðstæður þar sem þú ert staddur“.

Alveg eins og t.d. hjálparsími sem hægt er að hringja í, setur ekki þau skilyrði að einstaklingurinn sé búin að fara í meðferð og sé edrú eða í endurhæfingu, til að fá að tala við einhvern. Tilgangurinn er að tala við alla þar sem hver er staddur því vitað er að það getur bjargað mannslífi. 

Tilkoma dagseturs, félagsheimilis og áfangaheimilis í formi þrepaskipts áfangaheimilis getur breytt lífi margra einstaklinga sem hafa sjálfir ekki náð að leita sér aðstoðar eða hafa farið í gegnum sömu meðferðir aftur og aftur – en ná ekki fótfestu og að breyta lífi sínu með uppbyggilegum árangri. 

Annar þáttur í vitundarvakningunni sem þarf að eiga sér stað er að það þarf að breyta hugsjóninni, nálguninni og aðferðinni sem snýr að því að heimilislausir (og fíklar) séu með „svo mikinn“ vanda og þurfi „svo mikla“ þjónustu. 

Þetta eru einstaklingar sem þarf að nálgast á mannlegum forsendum, byggja þarf upp traust með því að þeir finni, sjái og upplifi stuðning í öllu sem þeir eru að ganga í gegnum. 

Til að þessi þáttur geti breyst þarf bæði hugarfarsbreytingu hjá kerfinu og þeim einstaklingum sem neyðast til að sækja þjónustu kerfisins. Hugarfarsbreytingin er að taka út ofbeldið.

Í raun skiptir engu máli hvar einstaklingur er staddur. 

Það sem skiptir máli er að viðkomandi finni fyrir því – að hann skiptir máli. 

Kærleikssamtökin hafa lagt áherslu á að fá einstaklinga í stjórn félagsins sem hafa reynslu af erfiðleikum í gegnum lífið og sem náð hafa árangri og fótfestu. 

Svo margir eru í dag að miðla reynslu sinni af bata – hvers kyns bata. 

Bati er hugtak sem þarf að aðlaga að öllum stigum, þ.e.a.s. að bati getur átt sér stað á öllum þeim stöðum sem einstaklingur getur verið á í lífinu. 

Ef eitt símtal í hjálparsíma varð til þess að einn einstaklingur tók ekki líf sitt – þá er um að ræða bata hjá viðkomandi. Einstaklingurinn upplifði að hann skipti máli og sá að það er til leið út úr sínum aðstæðum. Það er bati og hluti af bataferli. 

Þegar uppgjöf og tilgangsleysi hrjáir einstakling með langa áfallasögu – þá felst bati í því að aðstoða og styðja einstaklinginn til að finna, sjá og upplifa að það er þess virði að reyna einu sinni enn og í þetta sinn með stuðningi. 

Það þarf stórt átak í samstarfi til að ná að draga úr félagslegri einangrun, fátækt, heimilisleysi, áfengis- og/eða fíknineyslu- og áfallasögum. 

Það þarf meira samstarf við einstaklinga í öllum þessum aðstæðum. 

Það þarf meira samstarf milli félagasamtaka til að halda utan um einstaklinga. 

Það þarf meira samstarf við stjórnmálaflokka sem stýra opinberum kerfum og þar þarf mesta vitundarvakningin að eiga sér stað. Kerfi sem brýtur fólk niður eða heldur félagslega einangruðu, í fátækt, heimilislausu, í óreglu og viðheldur áföllum hjá stórum hóp einstaklinga - er greinilega ekki að halda í við nútímann þegar kemur að mannréttindum. 

Það er von og trú Kærleikssamtakanna að fleiri einstaklingar sjái tilgang í því að gerast félagsmenn og styrktaraðilar og þannig vera hlutdeild í því að koma á fót þrepaskiptu áfangaheimili, sem er dagsetur, félagsheimili og áfangaheimili með virkni- og stuðningsúrræði. 

Þessir staðir geta komið fjölda einstaklinga út úr félagslegri einangrun, út úr fátækt, af götunni, út úr óreglu og þeir geta fengið stuðning til að takast á við áfallasögu sína og þá erfiðleika sem hún hefur leitt af sér. 

Hér er hægt að lesa um þrepaskipt áfangaheimili Kærleikssamtakanna.
Hér er hægt að lesa um virkni- og stuðningsúrræði Kærleikssamtakanna.
Hér er hægt að lesa og sækja um félagsaðild hjá Kærleikssamtökunum.

♥     ♥     ♥

VILLT ÞÚ STYRKJA STARF KÆRLEIKSSAMTAKANNA:
Ef þú villt styrkja starf og úrræði Kærleikssamtakanna þá er hægt að velja úr styrktarleiðum sem eru kynntar hér.
Fyrir fyrirspurnir er hægt að fylla út hafa samband eða senda tölvupóst á netfangið kls@kaerleikssamtokin.is.

♥     ♥     ♥

TILGANGUR FÉLAGSINS
Tilgangur og markmið félagsins er að gæta hagsmuna og reka félagsstarf fyrir einstaklinga sem eru félagslega einangraðir vegna fátæktar, heimilisleysis og áfalla,  með áherslu á jaðarsetta og viðkvæma hópa í þjóðfélaginu.

♥     ♥     ♥