STYRKTARLEIÐ 1 Félagsaðild

STYRKTARLEIÐ 1

Félagsaðild er talin sem ein styrktarleið þar sem félagsgjöld tryggja innkomu inn í daglegan rekstur félagsins.  Á móti fá félagsmenn stuðning í ýmsu formi, félagsskap og annað sem samtökin leggja til. Lögð er áhersla á samstarf við félagsmenn, jákvæð mannleg samskipti, að mæta hverjum þar sem viðkomandi er staddur og aðstoða m.a. við umsóknir, virkni, úrlausnir og sækja sér meðferaðar/hjálpar/heilbriðgisþjónustu annars staðar ef þörf er á. Félagsstarfið er grundvöllurinn í samtökunum, að ná til þeirra sem eru félagslega einangraðir, búa við fátækt, eru heimilislausir og eiga langtíma óreglu- og/eða áfallasögu til að ýta undir að einsatklingar í þessari stöðu nái fótfestu í lífinu og geti lifað sæmandi lífi.

Félagsaðild:
5.gr. Aðild að félaginu hafa:

a)    Einstaklingar sem hafa áfalla- og/eða óreglusögu, sem teljast fátækir, sem eru heimilislausir eða búa á áfangaheimilum, sem eru með félagslegan vanda eða eru félagslega einangraðir.

b)    Nánasti aðstandandi, vinur, stuðningsmaður félagsmanns með velferð hans að leiðarljósi.

c)    Aðilar sem falla undir a) og b) lið og sem greiða félagsgjald með beingreiðslusamningi.

d)    Aðrir sem vilja leggja félaginu lið eru styrktaraðilar.

e)   Einstaklingar, fyrirtæki, félög, sjóðir og sjálfseignarstofnanir sem vilja koma að félaginu með uppbyggjandi hætti og hafa gert samstarfssamning við Kærleikssamtökin. Þeir eru undanþegnir félagsgjaldi.

Ef félagsmaður skv. a) lið segir sig úr félaginu eða fellur frá þá breytist aðild aðstandanda hans úr b) lið, þá annað hvort í c) eða e) lið svo fremi sem viðkomandi vill halda áfram að leggja félaginu lið.

Stjórn, trúnaðarmaður og varamaður hans sjá um skráningu umsókna a), b), c) og d) liða á þar til gerð eyðublöð og þarf beingreiðslusamningur að fylgja umsókn.

Stjórnin sér um gerð samstarfssamninga sbr. e) lið.

Stjórn félagsins fer yfir, samþykkir eða hafnar umsóknum um félagsaðild og heldur skrá yfir félagsmenn.

Ef umsókn er hafnað ber stjórninni að rökstyðja höfnunina og hefur umsóknaraðili 30 daga til að koma með skýringar eða viðbótar upplýsingar. Umsóknaraðili á rétt á því að skjóta ákvörðun um höfnun til atkvæðisgreiðslu á félagsfundi sbr. í 8. gr. laga nr. 110/2021 um brottvísun.

Aðild í félagið hefst þegar skráning er samþykkt og tekur gildi þann 1. næsta mánaðar.

Úrsögn úr félaginu þarf að berast skriflega og tekur gildi 1. næsta mánaðar eftir síðustu greiðslu.

Um brottvísun úr félaginu gildir 8. gr. Brottvísun úr félagi og IX. Kafli Viðurlög í lögum  nr. 110/2021, auk þess vegna vanvirðingar og misnotkunar á samþykktum félagsins. Ákvörðun um brottvísum má taka á stjórnarfundum og lokuðum félagsfundum og hefur félagsmaður 30 daga til að leggja fram andmæli.

Félagsgjöld – önnur gjöld:
6.gr. Á þar til gerðu eyðublaði er félagsaðild skráð og virkjast við samþykki stjórnar. Árgjald 12.000 kr. greiðist mánaðarlega með beingreiðslusamningi í banka.

Samþykkt skráning í félagið opnar strax fyrir mætingu á lokaða félagsfundi.

Ef eigi er greitt á milli 1-31 dags mánaðar, fyrir þann mánuð, fellur félagsaðildin úr gildi. Ef greitt er í næsta mánuði byrjar réttur til atkvæðagreiðlsu á félagsfundi að telja upp á nýtt. Stjórnin getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði.

Félagsmenn bera ekki persónulega ábyrgð á skuldum eða öðrum skuldbindingum félagsins nema með félagsgjaldi sínu og/eða öðrum gjöldum.

Önnur gjöld geta verið á áfangaheimilum og vernduðum vinnustað sem félagið starfrækir eða kemur að með starfi sínu.

Félagsfundir:
7gr. Rétt til setu á lokaða félagsfundi hafa skráðir félagsmenn.

Á lokuðum félagsfundum leggja félagsmenn fram og kjósa um tillögur, hugmyndir og beiðnir sem þeir vilja að séu teknar til skoðunar af hálfu stjórnar.

Unnið er að því með samvinnu að skoða áhrif tillagna, hugmynda og beiðna, vega og meta kosti og galla áður en ákvörðun er tekin um að innleiða þær í félagið eða útfæra sem verkefni.

Stjórnin getur lagt mál fram til kosningar á félagsfundi.

Umræður á félagsfundum eru á milli félagsmanna, trúnaðarmanns og varamanns hans.  Á félagsfundum eiga félagsmenn að geta talað frjálst um sín mál og félagsins.

Trúnaður á að ríkja milli félagsmanna.

Dagskrá lokaðra félagsfunda skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Upplýsingar um verkefni stjórnar og framvindu þeirra lagðar fram.
  3. Skráning í önnur verkefni kynnt.
  4. Opnar umræður og atkvæðisgreiðsla um tillögur, hugmyndir og beiðnir.
  5. Fundarstjóri færir tillögur, hugmyndir, beiðnir og ákvarðanir á fundi til bókar.

Atkvæðisréttur á félagsfundum:
8.gr. Rétt til atkvæðagreiðslu á lokaða félagsfundi, hafa félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald sitt mánaðarlega síðustu 3 mánuði.

Atkvæðisréttur nýs félagsmanns tekur gildi í 3ja mánuði eftir skráningu, t.d. ef skráning fer fram í janúar þá virkjast atkvæðisrétturinn í mars.

Einfaldur meirihluti mættra og atkvæðisbærra félagsmanna ræður úrslitum mála sem einskorðast við tillögur, hugmyndir og beiðnir til stjórnar.

Þá fer það eftir eðli þeirra hvort endanlegar ákvarðanir séu teknar á næsta félagsfundi, eftir umræður um hvort þær komi félaginu og félagsmönnum til góða. Ákveðnir liðir eru eingöngu teknir fyrir á aðalfundi sjá 10.gr.

Lesa nánar um lög félagsins í heild.

Smelltu hér til að fylla út eyðublað og virkja félagsaðild hjá Kærleikssamtökunum.

♥     ♥     ♥

VILLT ÞÚ FREKAR STYRKJA STARF KÆRLEIKSSAMTAKANNA:
Ef þú villt styrkja starf og úrræði Kærleikssamtakanna þá er hægt að velja úr styrktarleiðum sem eru kynntar hér.
Fyrir fyrirspurnir er hægt að fylla út hafa samband eða senda tölvupóst á netfangið kls@kaerleikssamtokin.is.

♥     ♥     ♥

TILGANGUR FÉLAGSINS
Tilgangur og markmið félagsins er að gæta hagsmuna og reka félagsstarf fyrir einstaklinga sem eru félagslega einangraðir vegna fátæktar, heimilisleysis og áfalla,  með áherslu á jaðarsetta og viðkvæma hópa í þjóðfélaginu.

♥     ♥     ♥