Siða- og verklagsrammi KLS

Siða- og verklagsramminn:
1.
Siða- og verklagsrammi þessi nær yfir allt starf KLS, sem og alla einstaklinga innan félagsins, þ.e. félagsmenn, trúnaðarmenn og stjórnarmenn, starfsfólk, sjálfboðaliða,  vinnsluaðila og samstarfsaðila.

Siða- og verklagsrammi þessi gildir í öllum verkefnum KLS. Þannig er hægt að ganga út frá því að ákveðnir þættir séu alltaf eins þó verkefnin séu ólík.
Aðaláhersla Kærleikssamtakanna er að fyrirbyggja og rjúfa félagslega einangrun með virkni- og stuðningsúrræði, sem er ekki meðferðúrræði í sjálfu sér – til viðbótar geta meðferðaraðilar boðið upp á meðferð af ýmsu tagi fyrir félagsmenn.

Samskipti:
2. Starf KLS og samskipti eiga að byggja á kærleika, jákvæðum og uppbyggjandi mannlegum samskiptum og virðingu í garð hvors annars. Að nota heilbrigðra skynsemi, virða jafnrétti, sýna náungakærleika, miðla hvetjandi og gefandi þekkingu á mannlegum nótum.

3.  Að hver leggi sig fram við að sýna kærleika og jákvæðni til að geta gefið það besta af sér á fundum, viðburðum, í verkefnum og vinnustofum á vegum samtakanna.
Taka mið af okkur sjálfum hverju sinni, þ.e. líðan og ástandi, svo við séum ekki að ýta undir neikvæða eða truflandi framkomu (stundum er betra að þegja en að segja).
Að allir geti mætt vitandi að tekið er vel á móti þeim.
Leggja sig fram um að leiðbeina viðkvæmum einstaklingum af varkárni til að tryggja að stuðningur verði ekki að þrýstingi eða kröfum fyrir viðkomandi.
Skýrt þarf að koma fram í samskiptum við félagsmenn og aðra sem leita til samtakanna – að þeir taki sjálfir ákvarðanir í sínum málum.
Að virkni- og stuðningsúrræðið er til þess fallið að virkja einstaklinga til þátttöku og framkvæmdar fyrir sjálfan sig fyrst og fremst.
Stuðningur og leiðbeiningar eiga að vera lausnarmiðaðar fyrir einstaklinginn – í þeirri stöðu sem viðkomandi er í hverju sinni og séu til þess að taka mið af – einstaklingur tekur lokaákvörðun um sjálfa/-n sig því hver þekkir sjálfa/-n sig best.

4. Taka á málum sem upp koma með þolinmæði, skilningi og þekkingu eftir bestu getu – að, ef okkur tekst ekki að halda í þessi gildi, að við leiðréttum okkur sjálf við fyrsta tækifæri og biðjumst afsökunar eða fyrirgefningar.
Ef við finnum að við ráðum ekki við samtal, við vitum ekki svör við spurningum (t.d. nýrra félagsmanna eða gesta), ef óvissa er um hvers konar virkni og/eða stuðning er rétt að veita einhverjum – ræða þá við trúnaðar-, stjórnarmenn eða verkefnastjóra KLS til að tengja viðkomandi við réttan aðila innan félagsins.
Þekkja sín mörk um hvað við erum tilbúin að taka á móti, hlusta á eða opna okkur fyrir.

Þagnarskylda – Trúnaður:
5. Þ
agnarskylda – öllum ber að virða trúnað og þagnarskyldu um það sem þeir heyra og sjá á félagsfundum eða í öðru starfi KLS. Ef tilkynna þarf um hvers kyns ofbeldi/áreiti, er það gert til trúnaðarmanna, stjórnarmanna eða sent á netfangið felagsstarf@kaerleikssamtokin.is. Þagnarskylda og trúnaður helst þó einstaklingur gangi úr félaginu eða láti af störfum.

Umsóknarblöð, auglýsingar, aðgerðir, áætlanir, stefnur og samningar:
6. Stjórnin og trúnaðarmenn sammælast um þennan siða- og verklagsramma, vefsíðuna, umsóknarblöð fyrir fundargerðir og félagsaðild, uppsetningu félagsstarfsins, auglýsingar, persónuverndar- og öryggisstefnu, samninga sem notaðir eru innan KLS, verkefnaáætlanir, verkefnastjórnun og aðgerðaráætlun gegn hvers kyns ágengni, einelti, ofbeldi og áreitni.

Félagsmenn geta komið með tillögur, hugmyndir og beiðnir sem ná yfir allt starf félagsins.

7. Persónuverndar- og öryggisstefnu KLS er að finna á vefsíðunni og verður aðgengileg ásamt öðru verklagi á hverju félagsheimili, áfangaheimili eða öðrum starfsstöðum KLS. Umsóknir og samningar á vegum KLS falla undir vinnslu persónuupplýsinga og eru ráðstafanir þess efnis tilgreindar á umsóknar- og samningsblöðum.

8. Samningar KLS eru sjálfboðaliða-, vinnslu-, ráðningar-, þjónustu- og samstarfssamningar.

  • Sjálfboðaliðar eru félagsmenn eða utanaðkomandi einstaklingar sem taka að sér verkefni innan KLS.
  • Vinnsluaðilar eru sjálfboðaliðar sem taka að sér verkefni innan KLS og meðhöndla persónuupplýsingar, gerður er vinnslusamningur sem inniheldur skýrt verklag bæði ábyrgðar- og vinnsluaðila.
    Vinnsluaðilar geta einnig verið þjónustuaðilar með þar til gerða þjónustusamninga, t.d. vegna hýsingar á vefsíðu, bókhaldskerfis, tölvupóstakerfis, gagnagrunni, posaleigu, vegna safnana eða hvers kyns þjónustu sem KLS kaupir.
  • Samstarfssamningar eru gerðir við einstaklinga, fyrirtæki, félög, sjóði og sjálfseignarstofnanir sem vilja koma að félaginu með uppbyggjandi hætti og teljast ekki félagsaðilar.
  • Ráðningarsamningar eru gerðir við einstaklinga sem vinna launað starf innan KLS.

9. Áætlun um öryggi og heilbrigði er aðgerðaráætlun við einelti, ofbeldi, áreiti og slysum innan félagsins. Áætlunin fjallar  hvers kyns ofbeldi sem upp kann að koma, s.s. hvernig brugðist er við, hvað þarf að tryggja, eftirfylgni, hvenær trúnaðarmenn og hvenær stjórnarmenn taka á kvörtunum, frávísum félagsmanna ef þörf er á, ásamt viðbrögðum og skráningum á slysum innan félagsins.

  • Hver sá sem verður var við og hver sá sem verður fyrir hvers kyns ofbeldi innan KLS, ber að tilkynna það til trúnaðar- eða stjórnarmanna, eða með því að senda tölvupóst á netfangið felagsstarf@kaerleikssamtokin.is.

10. Stjórn KLS hefur yfirumsjón með verkefnum og ber ábyrgð á að áætlanir standist.

  • Verkáætlanir (kostnaðar-, tíma-, rekstraráætlun) sem og stjórnun, umsjón og ábyrgð á verkefnum er í höndum þeirra sem stýra verkefni.
  • Þátttaka félagsmanna, sjálfboðaliða, samstarfsaðila eða launaðs starfsfólk sem koma að verkefnum innan KLS eru samningsbundnir og bera ábyrgð á sínu starfi, mætingu, að halda samskiptum jákvæðum og að þeir taki að sé verkefni sem þeir ráða við.
  • Stjórnin sinnir eftirliti og grípur til aðgerða ef verkáætlanir, stjórnun, umsjón eða ábyrgð er ábótavant, t.d. ef vikið er frá tilgangi, markmiðum, þessum siða- og verllagsramma, virkni- og stuðningsúrræði, félagsstarfi, sjálfboðaliða-, vinnslu-, samstarfs- eða ráðningarsamningum, lögum KLS eða lögum sem félagið er bundið.

Uppfært af stjórn 3.7.2023
Samþykkt af stjórn og trúnaðarmönnum 27.10.2022

Í reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynbundinni og kynferðislegri áreitni ofbeldi á vinnustöðum segir m.a.:

  • Einelti: síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta.
    • Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
  • Kynbundin áreitni: hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður.
  • Kynferðisleg áreitni: hvers kyns kynferðisleg orðbundin, táknræn og/eða líkamleg hegðun.
    • átt er við hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna fyrir viðkomandi.
  • Ofbeldi: hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.

Dæmi:

  • ágeng framkoma sem ýfir upp kvíða og ótta.
  • óbein eða bein stjórnun (að tala og ákveða fyrir aðra, hunsa beiðnir annarra, heyra ekki þegar sagt er nei).
  • að þrýsta á aðra til að vera meðvirkir með sér.
  • að þrýsta á aðra til að ljúga fyrir sig .
  • hvers kyns hótanir og þvinganir.

♥     ♥     ♥

VILLT ÞÚ STYRKJA STARF KÆRLEIMSSAMTAKANNA:
Ef þú villt styrkja starf og úrræði Kærleikssamtakanna þá er hægt að velja úr styrktarleiðum sem eru kynntar hér.
Fyrir fyrirspurnir er hægt að fylla út hafa samband eða senda tölvupóst á netfangið kls@kaerleikssamtokin.is.

♥     ♥     ♥

TILGANGUR FÉLAGSINS
Tilgangur og markmið félagsins er að gæta hagsmuna og reka félagsstarf fyrir einstaklinga sem eru félagslega einangraðir vegna fátæktar, heimilisleysis og áfalla,  með áherslu á jaðarsetta og viðkvæma hópa í þjóðfélaginu.

♥     ♥     ♥